8.10.2007 | 21:09
Bóndi í útrás
Fyrr í kvöld fór Gísli á bæ einn hér í Hraunhreppnum ásamt móður sinni og vinnukonu að skoða fé til kaups. Mér skilst að til standi að kaupa um 100 fjár hvorki meira né minna. Ég skil reyndar ekki þennan gríðarlega áhuga eiginmannsins á sauðfé en það er bara svona. Maður skilur víst ekki allt í þessari veröld. Hann skilur heldur ekkert í mér hvernig í ósköpunum ég geti haft gaman af því að vasast í pólitík en svona erum við mannskepnurnar nú ólíkar.
Í gærkvöldi missti Alexander eina tönn sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað að Guðjón var líka með eina lausa. Alexander hugsaði sér gott til glóðarinnar og setti tönnina undir koddann í þeirri von að tannálfurinn ætti einhvern aur. Guðjón gat ekki til þess hugsað að hann fengi engan aur og fór því inn á klósett og byrjaði að rugga tönninni fram og til baka uns hún lét undan. Það voru því þónokkur útgjöld hjá tannálfinum í nótt þar sem tvær tennur yfirgáfu litla munna.
Í morgun fór ég til læknis þar sem ég þarf að láta fjarlægja góðkynja kalkkirtla í höfðinu á mér. Ég var nú svo bjartsýn að ég hélt að hann gæti gert þetta strax en það var nú ekki alveg svo. Ég á reyndar að koma á mánudaginn þar sem þeir verða fjarlægðir með smá aðgerð. Eftir hádegi fór ég svo aftur til læknis þar sem ég þjáist af miklum verkjum í hálsi og öxl. Læknirinn talaði um að ég væri með hnúða í hálsinum og þarf því að fara í leisermeðferð hjá sjúkraþjálfara eða að fá sprautur í hálsinn. Ég valdi frekar sjúkraþjálfarann þar sem mér er frekar illa við sprautur. Vonandi fer ég nú að hressast eftir allar þessar læknisheimsóknir.
Athugasemdir
Glæsileg útrás bóndans. Gaman að geta þess að um daginn var ég að tala um innflytjendur í kennslustund. Unglingar eru alveg ótrúlega hræddir við innflytjendur og tala um að íslenska þjóðin og menningin sé beinlínis í stórhættu vegna þeirra. Sem dæmi um þetta nefndi einn nemandi að það væri kominn pólskur bóndi. Ég veit svo sem ekkert um hvort það er satt en taldi það bara vera hið besta mál. Þá heyrðist í honum: ,,Þetta er hræðilegt, Pólverjarnir eru bara að taka yfir allt landið..." og uppskar mikinn hlátur samnemenda sinna og kennara. Einn pólskur bóndi útrýmir varla íslensku bænadastéttinni svona 1-2-3. Haldið bara áfram góðu starfi.
En ég óska þér góðs bata í þessum veikindum.
Guðrún (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 09:08
Já hún er alveg merkileg umræðan í þjóðfélaginu um innflytjendur. Ég hef einmitt upplifað þessar áhyggjur fólks um hér á landi sé allt að fara til fjandans út af öllum þeim útlendingum sem hér búa. Ég stór efast um að pólverjar hafi efni á að kaupa sér jarðir á Íslandi og gerast bændur. Ef að einhverjir útrýma bændastéttinni þá eru það líklega íslenskir auðmenn. Þeir eru helsta ógn íslensk landbúnaðar í dag.
Takk fyrir heilsukveðjurnar. Ég byrja í meðíferð í næstu viku svo maður ætti að vera orðinn þokkalegur um jólin
Ingunn (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 05:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.