12.10.2007 | 06:13
Get ekki setið á mér
Í gær var ég á ansi löngum fundi í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Þar voru málefni OR rædd og þær afleiðingar sem þetta mál hefur haft þá sérstaklega fyrir ímynd fyrirtækisins. Til að upplýsa ykkur sem ekki vitið þá á Borgarbyggð tæpt eitt prósent í OR þannig að við erum með áheyrnarfulltrúa í stjórninni. Sveitarstjórn Borgarbyggðar sendir frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem við lýsum áhyggjum okkar í þessu máli og þeim vinnubrögðum sem við voru höfð.
Mér finnst framganga framsóknarmannsins Björns Inga Hrafnssonar alveg með ólíkindum. Maður veltir fyrir sér hvort að Guðni Ágústsson formaður framsóknarmanna sé að ná fram hefndum gegn Sjálfstæðismönnum. Það sem gerðist í gær í borgarmálunum í Reykjavík sýnir okkur einfaldlega það hversu pólitíkin getur verið grimm og óvægin. Valdabaráttan er svo mikil að menn svífast einskis ef þeir fá einhver völd. Ég harma svona framgöngu og ég held að hún sé alls ekki til góða fyrir borgarbúa.
Ég og strákarnir ætlum að skreppa á Stokkseyri um helgina þar sem mér skilst að verði nokkuð fjölmennt. Bjarki er búinn að suða alla vikuna um að fara þangað þannig að ég ætla að láta undan. Gísli er líka að fara í leit á laugardaginn þannig að hann verður ekki heima. Að lokum þá vil ég óska ykkur góðrar helgar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.