31.12.2007 | 14:44
Annáll ársins 2007
Nú er árið 2007 senn á enda runnið. Það hefur verið nokkuð viðburðaríkt í mínu lífi líkt og undanfarin 9 ár. Við fluttum í nýja húsið okkar í lok janúar. það er búið að vera ósköp notalegt að búa í svo glæsilegu húsi að ég held að það teljist til forréttinda.
Búskapurinn hefur gengið ágætlega og sauðburðurinn gekk með besta móti. Heimtur í haust voru með ágætum og var kindunum fjölgað um 100. Það varð að taka hluta af hlöðunni og breyta henni í fjárhús svo hægt væri að koma öllum kindunum fyrir.
Við fengum meri á árinu í skiptum fyrir fjórhjól. Hún hefur reynst okkur vel og er alveg dásamleg. Verst hvað maður hefur lítinn tíma til að sinna henni. Ég fékk líka 9 hænu unga sem reyndust vera 5 hanar og 4 hænur. Hönunum var slátrað öllum nema einum. Hænurnar eru byrjaðar að verpa en það er ansi erfitt að finna eggin því þær verpa bara þar sem þeim sýnist þrátt fyrir fínan heimasmíðaðan varpkassa. Það var svo hann Lubbi, lítill sætur hvolpur sem flutti í sveitina á árinu. Hann braggast vel og fer á hverjum morgni með húsbónda sínum í fjárhúsin.
Í haust kom til okkar yndisleg finnsk stúlka sem var hjá okkur fram að jólum. Það var mjög gott að hafa hana hjá okkur og söknum við hennar mjög. Það er aldrei að vita nema það komi önnur finnsk í vor áður en sauðburðurinn hefst.
Alexander byrjaði í grunnskóla nú í haust og Guðjón fór í annan bekk og Pétur í níunda. Bjarki Blær er bara orðinn einn eftir á leikskóla.
Við Pétur skelltum okkur í helgarferð til Manchester á árinu. Það gekk mjög vel og áttum við góðan tíma saman.
Ég flutti í nýja leikskólann í ágúst sem var þvílíkur munur frá fyrra húsnæði. Starfsemin hefur gengið með ágætum og hefur börnum og starfsmönnum fjölgað nokkuð.
Í september byrjaði ég aftur í pólitíkinni eftir nokkurra mánaða hlé. Það er mjög gaman að vera kominn af stað aftur. Fullt af spennandi og skemmtilegum verkefnum framundan.
Árið 2008 sem senn gengur í garð leggst vel í mig. Það eru mörg spennandi verkefni hjá mér á næsta ári. Það er alveg orðið spurning um að láta stóru draumana rætast. Meira um það síðar.
Guð gefi ykkur öllum gleði og gæfu á nýju ári.
Gleðilegt ár!!
Athugasemdir
Sæl þið sveitafólk.
Gleðilegt ár og takk fyrir gömlu árin.
Mikið er húsið ykkar flott - þú þyrftir nú að setja inn fleirri myndir. Ég tala nú ekki um að maður þarf að fara að koma og skoða hjá ykkur.
Alltaf eruð þið velkomin í Fagradal ef þið eruð á ferðinni (það er bara örskot frá Túnpríði).
Kveðja,
Bogga og co
Sigurborg Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.