Helgarveðrið

Veðrið síðustu daga hefur sett áform mín úr skorðum. Það er eina vitið að halda sér heima þegar veðrið lætur svona. Á föstudaginn ætlaði ég að fara til Reykjavíkur á ráðstefnu og svo í langþráða heimsókn til vinkonu minnar. Ekkert varð úr því þar sem allt var í lamasessi í Reykjavík og ráðstefnunni aflýst. Ég dreif mig þó í vinnuna og komst með naumindum eftir smá hrakningar á leiðinni.

Í gær var svo kvenfélagsfundur hér í sveit en því miður þá komumst við tengdamæðgur ekki þar sem færðin var svo slæm að við hreinlega treystum okkur ekki. Við fréttum af því helsta sem ákveðið var á fundinum þar sem formaðurinn er að vinna hjá mér. Ég veit að það stendur til að fara í dekurferð til Reykjavíkur einhvern laugardaginn í febrúar. Þá verðum við bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir svo við komumst nú.

Gísli er búinn að vera moka snjó alla helgina og er enn að. Ég hef því lítið séð hann um helgina og því leyst hann af í fjárhúsunum með dyggri aðstoð tengdaforeldra minna. Tengdamóðir mín bjargaði hænunum mínum í gærmorgun þar sem þær voru fenntar í kaf í gamla kofanum sínum. Nú erum við búnar að búa til fínt afdrep fyrir þær inni í fjárhúsi og þetta er alveg stórfínt hjá þeim. Það verður að nota tækifærið þegar bóndinn er ekki heima og breyta aðeins. Hænurnar eru sælar og glaðar á nýja staðnum og voru búnar að verpa þremur eggjum þegar ég kom út í fjárhús seinnipartinn í gær. Þannig að núna verða eggjakökur í öll mál.

Ég vona bara að veðrið fari að lagast þar sem ég þarf að fara með Bjarka Blæ til Reykjavíkur og kaupa á hann gleraugu. Hann þarf semsagt að ganga með gleraugu þar sem hann er ansi fjarsýnn. Mamma sagði nú við mig að það væri full mikil bjartsýni að halda að ég slyppi svo vel að enginn af strákunum þyrfti gleraugu. Föðurfjölskylda drengsins er nærri öll með gleraugu þannig að líkurnar voru töluverðar á því að einhver þyrfti gleraugu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband