2.2.2008 | 11:31
Mýramannablót
Í gærkveldi var hið fræga Mýramannablót haldið í Lyngbrekku. Mikið fjölmenni var á blótinu og tókst það með hreinum ágætum. Það voru Stapabæirnir þ.e. Arnarstapi og Hundastapi sem sáu um blótið. Það vara enginn annar en Lundarinn Gísli Einarsson spéfugl sem fékk Mýrarlýðinn til að engjast um af hlátri með einstakri kímnigáfu sinni. Það skemmtilega við skemmtiatriðin var stuttmyndasýning þar sem leikarar voru engir aðrir en bændur á Mýrunum. Það er greinilegt að hér í sveit býr afburðahæfileikaríkt fólk sem sýndi sig og sannaði í myndinni.
Eftir að formlegri veislustjórn var lokið fór hljómsveitin Úlrik að leika undir dansi. Þeir félagar voru hreint út sagt alveg frábærir og héldu uppi þvílíkri stemningu. Meira að segja ég, ungtemplarinn sjálfur, dansaði eins og ég ætti lífið að leysa. Enda svosem ekki á hverjum degi sem maður kemst á almennilegt dansiball. Þegar mér fannst svo nóg komið af hlátri, dansi og þvaðri ákvað ég að það væri tími til kominn að fara heim. Nei,nei maðurinn minn var ekki tilbúinn til þess enda í syngjandi sveiflu. Ég brá því á það ráð að tala við nágrannanna og fá þá til kippa honum með heim. Það var ekkert mál enda afbragðs grannar. Eina skilyrðið sem frúin setti var að hann kæmi með þegar hún segði allir upp í bílinn, upp í sveit með skrílinn. Ég veit það að eiginmenn hlýða frekar nágrannakonum sínum en sínum eigin. Það fór því að ég ók ein heim í 20 stiga frosti, úff þvílíkur kuldi. Það var eins og heilinn á mér frysi á leiðinni kuldinn var þvílíkur.
Í kvöld er svo kósýkvöld hjá starfsmönnum Uglukletts. Ég er búin að lofa því að mæta þar enda geri ég ráð fyrir miklu stuði enda hátt hlutfall starfsmanna minna Mýrarmenn. Það er bara eitthvað svo sérstakt við Mýrarnar....svona eins og að lenda í hvirfilbyl í logni.
Athugasemdir
Hvar eru svo kjaftasögurnar af þorrablótinu? Slógust menn ekkert?
En hvað veit ég svo sem, hef eiginlega aldrei farið á þorrablót í sveitinni minni enda einhvern veginn alltaf verið meiri Snæfellingur en Mýramaður. Hvirfilbylur í logni - glöggt er gests augað.
Guðrún (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 22:51
Menn duttu, rifust og slógust af sönnum Mýrarmannasið. Þetta var albesta þorrablót sem ég hef nokkurntímann farið á.
Reyndar skal það viðurkennast ég hef ekki verið mikil blótmanneskja. Fór fyrst á þorrablót 18 vetra gömul í Félagslundi í Gaulverjabæjarhreppi. Hét því í mörg mörg ár á eftir að ég skyldi aldrei aftur á svona samkomu. En þegar ég flutti á Mýrarnar varð ég að endurskoða orð mín ef ég ætlaði hreinlega að vera með.
Ingunn (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.