17.8.2007 | 20:21
Dúpsí rúpsí
Þessi vinnuvika er búin að líða alveg ótrúlega hratt enda búið að vera ansi mikið að gera. Nýi leikskólinn Ugluklettur er búinn að eiga hug minn og hjarta þessa vikuna. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt en jafnframt ansi hreint krefjandi verkefni. Það er í mörg horn að líta þ.e. nýtt hús, ný börn, nýir foreldrar og nýtt starfsfólk. Langflestir foreldrar eru ánægðir og dásama leikskólann(ekki annað hægt hann er svo flottur). Starfsfólkið er líka ánægt, allir svo glaðir, þannig að þetta er bara gaman.
Bjarki Blær fór í leikskólann á þriðjudaginn eftir ansi hreint gott sumarfrí. Það var pínu erfitt fyrir hann fyrst en svo var allt í lagi. Hann er mjög ánægður í leikskólanum. Guðjón og Alexander eru búnir að vera með pabba sínum í heyskap þessa vikuna og Pétur greyið er lasinn(hálsbólga og beinverkir).
Í næstu viku fer Alexander á sundnámskeið þ.e. í 5 skipti. Gísli ætlar að sjá um að fara með hann þar sem frúin er frekar busy. Nú svo styttist nú að strákarnir byrji í grunnskólanum en hann byrjar 27. ágúst. Alexander er að fara byrja í 1. bekk og Guðjón að fara í 2. bekk. Guðjón er búinn að tilkynna Alexander hvernig hann eigi að haga sér í skólanum þannig að hann veit aðeins hvernig þetta gengur fyrir sig. Þeir eru svo báðir ákveðnir að hefja píanónám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar í haust. Einhver hugur er í Guðjóni að fara að æfa frjálsar þannig að það verður nóg að gera. Pétur er að fara í níunda bekk þannig að það styttist í að hann fari í menntaskóla.
Í september byrja ég svo aftur í sveitastjórn eftir ágætis frí. Mér finnst það reyndar bara mjög spennandi þar sem pólitíkin er eitt af aðaláhugamálum mínum. Nú heldur örugglega einhver að ég sé eitthvað skrýtin að hafa svona áhugamál en sem betur fer þá erum við öll ólík og höfum ólík áhugamál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2007 | 09:49
Brúðkaupsafmæli og annað brjálæði
Í gær áttum við hjónin 5 ára brúðkaupsafmæli. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Dagurinn hjá okkur var nú bara með nokkuð hefðbundnu sniði þ.e. ég fór í vinnunna og Gísli var heima með strákana. Það er alveg frábært að hafa karlinn heima við þegar ég þarf að vinna eins og brjálæðingur. Ekki svo að skilja að karlinn geri ekki neitt, þvert á móti, hann er á fullu frá morgni til kvölds. Ekki amalegt.
Í gærkvöldi voru strákarnir að sulla í læknum fyrir neðan húsið okkar í alveg hreint yndislegu veðri. Ég er svo þakklát að vera þeirra forréttinda aðnjótandi að búa í paradís. Sveitin okkar er algjör paradís, sérstaklega þegar veðrið er gott. Útsýnið og víðáttan hér er dásamleg.
Málið er bara að ég ætla að taka á móti börnum í nýja leikskólanum á þriðjudaginn og er því miður nokkuð stressuð þar sem það er svo margt eftir. Ég er að reyna að róa mig niður og telja sjálfri mér trú um að þetta reddist allt...íslenski stíllinn. Á mánudaginn verður semsagt stór dagur þar sem allir ætla að leggjast á eitt og klára þetta. Starfólkið mitt er svo yndislegt og jákvætt þannig að þær bakka mig upp í öllu stressinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.8.2007 | 22:12
Frábær fjörureið
Var að koma heim úr fjörureið. Það var alveg stórkostleg upplifun að ríða silkimjúkar fjörurnar. Algjörlega toppurinn í hestamennskunni. Það besta er að það er bara spölkorn fyrir okkur að fara niður á fjörur. Nú verður þetta gert oftar ef ég fæ einhverju um það ráðið.
Eftir fjörureiðina var okkur boðið í kaffi á Kafteinsflöt. Þar var sannkölluð útihátíðarstemning. Ég entist hinsvegar ekki lengi þar sem ég þufti að drífa mig heim og athuga með börnin. Karlinn var þó ekkert á því að koma heim. Svona eru nú þessir karlar, óalandi og óferjandi
Bloggar | Breytt 6.8.2007 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.8.2007 | 23:37
Á hlaupum
Mér var litið út um stofugluggann hjá mér um klukkan 23.30 í kvöld og þar blasti við þvílík sjón. Ég stökk og náði í myndavélina, smeygði mér í inniskóna og hljóp út á naríunum til að taka ómótstæðilegar myndir af alíslensku sólsetri. Myndirnar eru algjört augnakonfekt....umm
Bloggar | Breytt 6.8.2007 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2007 | 20:20
í sumarfríi
Loksins komin í sumarfrí, reyndar búin að vera í viku fríi og mér finnst fríið alveg að verða búið . Líklega er ástæðan fyrir því að ég verð einungis í þrjár vikur í fríi eða jafnvel ennþá styttra. Er að hamast við að opna nýjan leikskóla í Borgarnesi um miðjan ágúst. Þetta er nú ljóta stressið í kringum þetta
. Vonandi fer þetta nú allt vel, íslenski stíllinn: þetta reddast
.
Á föstudaginn erum við Pétur að fara til Manchester í helgarferð. Það verður vonandi ágætt að ferðast með unglingnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)