Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilegt sumar!!

Þá er sumarið gengið í garð allavega samkvæmt almanakinu. Fyrstu lömbin fæddust í gær hjá okkur. Það voru gimbur og hrútur. Gimbrin fékk nafnið Hanna. Ástæðan fyrir nafnavalinu er sú að systir hennar Helenu átti afmæli í gær og Helena var búin að ákveða ef það fæddist gimbur á afmælisdaginn hennar Hönnu þá myndi hún heita Hanna. Og það gerðist einmitt:)

Helena, finnsk 18 ára stúlka, kom til okkar s.l. mánudag. Hún er hin yndislegasta og er strax búin að heilla strákana. Það þarf ekkert að segja henni hvað á að gera heldur gerir það sem þarf að gera. Alveg hreint dásamlegt:) Hún ætlar að vera hjá okkur í sumar en hún fer til Finnlands í lok maí til að útskrifast sem stúdent og kemur svo aftur í byrjun júní.

Anni og Elisa, finnsku stelpurnar sem voru hér í haust eru að spá í að koma í heimsókn í sumar. Það verður mjög gaman að hitta þær aftur, þær voru hreint alveg yndislegar. Ég reikna því með því að það verði mikill gestagangur hjá okkur í sumar þar sem fleiri Finnar hafa boðað komu sína. Það er alltaf gaman að fá skemmtilega gesti. Finnar eru alveg hreint frábært fólk,  duglegir, skemmtilegir og kurteisir.

 


Stolt af gamla

Hvar væri maður ef maður hefði ekki mbl.is til að kíkja inná og fá fréttir af sínum nánustu?

 Annars er ég bara svaka stolt af pabba gamla hvað það gengur vel hjá honum að veiða humar. Ég held að hann sé einn allrabesti humarskipstjóri landsins enda hefur hann áratuga langa reynslu af veiðum. Það viðurkennist hér að ég erfði ekki sjómannsáhugann. Get varla farið niður á bryggju án þess að verða sjóveik. Ég kann betur við mig sem landkrabbi.


mbl.is Humarveiðin vel af stað þrátt fyrir brælu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð til íslenskra foreldra

Jæja þá er Þyrnirós vöknuð af værum blundi. Það var eitthvað svo erfitt að vakna aftur eftir algjöra afslöppun í annarri heimsálfu frá ysi og þysi íslensks veruleika. Það var svo yndislengt að vakna á morgnana áhyggjulaus og þurfa aðeins að hugsa um mann sjálfan. Hvað langar mig til að gera í dag? Reyndar verð ég að viðurkenna eftir að hafa bara þurft að hugsa um sjálfa mig í eina viku var ég orðin pínu leið á því. Ég held að það sé alveg útilokað fyrir mig að verða drottning í ríku mínu með þjóna á hverjum fingri. Líklega er ég of sjálfstæð og þrjósk til að geta það.

Nú er ég semsagt aftur kominn í íslenska gírinn. Vinna og aftur vinna. Stress yfir ástandi íslensku krónunnar, hækkunar stýrivaxta og vaxandi verðbólgu. Þetta þjóðfélag sem við búum í hér á Íslandi er alveg ótrúlega stessandi og ekkert skrýtið hvernig ástandið er hjá mörgum Íslendingnum. Er ekki nokkur leið á að við slökum aðeins á þessu neyslu brjálæði. Slökum á og höldum okkur heima hjá okkur. Eyðum tíma með börnunum okkar í að gera ekki neitt, það er bara vera til staðar og hlusta á þau. Tala saman, lesa saman, spila saman, fara í gönguferðir saman. Ekkert sem kostar peninga heldur að við gefum eitthvað af okkur til þeirra. Við þurfum ekki að vera þeysast um allar tryssur með börnin og kaupa hitt og þetta handa þeim. Það er ekki það sem þau raunverulega vilja. Þau vilja bara að við séum til staðar, hlustum á þau af athygli og veitum þeim ást og hlýju. Þetta eru skilaboð frá mér til íslenskra foreldra.


Sol og hiti in Dominique Republik

Nu erum vid hjonin stodd i Dominska lydveldinu i 30 stiga hita. Alveg draumalif, hiti, sol og sumar. Er buin ad fara i nudd og Gisli er ad fara a eftir. Vid eigum eftir ad vera her i ruma viku enn thannig ad vid verdum uthvild eftir ferdina.

kvedja Ingunn og Gisli


Dekurferð

Í gær fórum við nokkrar kvenfélagskonur til Reykjavíkur í dekur. Í Baðhúsinu fengum við parafín maska á hendur, maska á andlit, herðanudd, gufu,heitan pott ásamt sótavatni og ávöxtum. Á milli meðferða vorum við í heita pottinum og gufunni. Þetta var virkilega notalegt og við algjörlega endurnærðar eftir meðferðina. Ég mæli eindregið með því að láta dekra svona við sig annað slagið. Eftir dekrið fórum við svo út að borða á Pottinum og pönnunni. Ágætis elli smella staður þar sem boðið var uppá hefðbundin íslenskan mat. Brunuðum svo heim saddar og sælar með daginn.

Þegar heim var komið var Júróvisíon partýið að byrja. Allir í stellingum enda stór stund fyrir sanna júróvisíon aðdáendur. Úrslitin komu sumum í fjölskyldunni á óvart(ekki mér þó). Ég held þó að menn séu að verða sáttir með þau. það er svo bara vonandi að við fáum að vera með í Serbíu 22. maí n.k.

Í dag er svo konudagurinn og ég í áframhaldandi dekri. Maðurinn minn gaf mér æðislegan blómvönd ásamt súkkulaði(hann veit hvað ég er veik fyrir því). Við erum svo búin að vera í rólegheitum hér heima í dag að perla og spila með strákunum. Voða notalegt. Reyndar ætlum við að skreppa aðeins út á eftir að kíkja á hestana þar sem veðrið er alveg dásamlegt...allavega séð út um eldhúsgluggann.


Séríslenskt tuð

Þarf að fá smá útrás fyrir tuð. 

 Það er alveg með ólíkindum hvað tíminn líður. Allt lífið snýst um tíma.  Hver dagur nánast bókaður stund fyrir stund. Sumir segja að tíminn sé afstæður. Af hverju látum við þá stjórnast svona af tímanum? Ég veit það ekki.

Er ekki hægt að hægja á öllu? Þó það væri ekki nema aðeins. Hraðinn er svo mikill að maður veit varla hvort maður er að koma eða fara. Ég fer í vinnuna á mánudagsmorgnum og það næsta sem ég veit þá er kominn föstudagur og helgarfrí. Aftur og nýbúinn.

Annað sem mig langar að ræða en það er veðrið. það er kannski ekkert skrýtið að við Íslendingar erum hálf klikkuð. Veðráttan á þessu blessaða landi er nú til að gera hvern mann vitlausan. Endalaus leiðindi í veðrinu. Nú er aftur byrjað að snjóa með tilheyrandi skemmtilegheitum eða hitt þó heldur.

Það er kannski spurning um að finna sér stað í veröldinni þar sem sólin skín alla daga og tíminn stendur í stað.


Netsambandsleysi

Síðasta helgi var hálf döpur hjá mér, ekkert netsamband, og því ekkert bloggað. Það er ótrúlegt hvað maður er orðinn háður þessu neti, jaðrar við fíkn. Í stað þess að sitja fyrir framan tölvuna fór ég í fjárhúsin og gaf. Þannig að þetta var kannski ekki svo slæmt þegar allt kemur til alls. Ekki svo að skilja að ég sitji fyrir framan tölvuna allan þann tíma sem ég er heima. Því fer víðsfjarri. Verkefnin á bænum eru ótal mörg og það er greinilegt að vinnukonan er farin. Reyndar hef ég verið að virkja unglinginn á heimilinu til heimilisstarfa. Þannig að þegar allir hjálpast að þá hefst þetta.

 

 


Mýramannablót

Í gærkveldi var hið fræga Mýramannablót haldið í Lyngbrekku. Mikið fjölmenni var á blótinu og tókst það með hreinum ágætum. Það voru Stapabæirnir þ.e. Arnarstapi og Hundastapi sem sáu um blótið. Það vara enginn annar en Lundarinn Gísli Einarsson spéfugl sem fékk Mýrarlýðinn til að engjast um af hlátri með einstakri kímnigáfu sinni. Það skemmtilega við skemmtiatriðin var stuttmyndasýning þar sem leikarar voru engir aðrir en bændur á Mýrunum. Það er greinilegt að hér í sveit býr afburðahæfileikaríkt fólk sem sýndi sig og sannaði í myndinni.

Eftir að formlegri veislustjórn var lokið fór hljómsveitin Úlrik að leika undir dansi. Þeir félagar voru hreint út sagt alveg frábærir og héldu uppi þvílíkri stemningu. Meira að segja ég, ungtemplarinn sjálfur, dansaði eins og ég ætti lífið að leysa. Enda svosem ekki á hverjum degi sem maður kemst á almennilegt dansiball. Þegar mér fannst svo nóg komið af hlátri, dansi og þvaðri ákvað ég að það væri tími til kominn að fara heim. Nei,nei maðurinn minn var ekki tilbúinn til þess enda í syngjandi sveiflu. Ég brá því á það ráð að tala við nágrannanna og fá þá til kippa honum með heim. Það var ekkert mál enda afbragðs grannar. Eina skilyrðið sem frúin setti var að hann kæmi með þegar hún segði allir upp í bílinn, upp í sveit með skrílinn. Ég veit það að eiginmenn hlýða frekar nágrannakonum sínum en sínum eigin. Það fór því að ég ók ein heim í 20 stiga frosti, úff þvílíkur kuldi. Það var eins og heilinn á mér frysi á leiðinni kuldinn var þvílíkur.

Í kvöld er svo kósýkvöld hjá starfsmönnum Uglukletts. Ég er búin að lofa því að mæta þar enda geri ég ráð fyrir miklu stuði enda hátt hlutfall starfsmanna minna Mýrarmenn. Það er bara eitthvað svo sérstakt við Mýrarnar....svona eins og að lenda í hvirfilbyl í logni.

 


Helgarveðrið

Veðrið síðustu daga hefur sett áform mín úr skorðum. Það er eina vitið að halda sér heima þegar veðrið lætur svona. Á föstudaginn ætlaði ég að fara til Reykjavíkur á ráðstefnu og svo í langþráða heimsókn til vinkonu minnar. Ekkert varð úr því þar sem allt var í lamasessi í Reykjavík og ráðstefnunni aflýst. Ég dreif mig þó í vinnuna og komst með naumindum eftir smá hrakningar á leiðinni.

Í gær var svo kvenfélagsfundur hér í sveit en því miður þá komumst við tengdamæðgur ekki þar sem færðin var svo slæm að við hreinlega treystum okkur ekki. Við fréttum af því helsta sem ákveðið var á fundinum þar sem formaðurinn er að vinna hjá mér. Ég veit að það stendur til að fara í dekurferð til Reykjavíkur einhvern laugardaginn í febrúar. Þá verðum við bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir svo við komumst nú.

Gísli er búinn að vera moka snjó alla helgina og er enn að. Ég hef því lítið séð hann um helgina og því leyst hann af í fjárhúsunum með dyggri aðstoð tengdaforeldra minna. Tengdamóðir mín bjargaði hænunum mínum í gærmorgun þar sem þær voru fenntar í kaf í gamla kofanum sínum. Nú erum við búnar að búa til fínt afdrep fyrir þær inni í fjárhúsi og þetta er alveg stórfínt hjá þeim. Það verður að nota tækifærið þegar bóndinn er ekki heima og breyta aðeins. Hænurnar eru sælar og glaðar á nýja staðnum og voru búnar að verpa þremur eggjum þegar ég kom út í fjárhús seinnipartinn í gær. Þannig að núna verða eggjakökur í öll mál.

Ég vona bara að veðrið fari að lagast þar sem ég þarf að fara með Bjarka Blæ til Reykjavíkur og kaupa á hann gleraugu. Hann þarf semsagt að ganga með gleraugu þar sem hann er ansi fjarsýnn. Mamma sagði nú við mig að það væri full mikil bjartsýni að halda að ég slyppi svo vel að enginn af strákunum þyrfti gleraugu. Föðurfjölskylda drengsins er nærri öll með gleraugu þannig að líkurnar voru töluverðar á því að einhver þyrfti gleraugu.

 


Hvað er í matinn??

Sælir lesendur góðir!

 Mig langar til að benda ykkur á algjöra snilldar vefsíðu þar sem þið getið fundið út hvað þið getið haft í matinn. Hver kannast ekki við þetta eilífar vandamál, hvað á að hafa í matinn? 
Á þessari síðu getur þú á einfaldan máta sett upp matseðil fyrir hvern mánuð fyrir sig, prentað út uppskriftir, sent innkaupalista með sms í farsímann þinn, ákveðið magn innihalds eftir því hversu margir eru í mat o.fl. Slóðin er:
www.hvaderimatinn.is 

Verði ykkur að góðu!!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband