Færsluflokkur: Bloggar
22.1.2008 | 21:18
Helstu fréttir
það eru búin að vera endalaus veikindi hjá okkur það sem af er þessu ári. Í gærkvöldi náðu þau svo hámarki þegar Alexander var fluttur á sjúkrahús með hraði ansi mikið veikur. Hann er kominn heim og á batavegi eftir viðeigandi meðferð lækna á Barnaspítala Hringsins.
Strákarnir komust ekki í skólann í dag vegna veðurs. Það var snælduvitlaust veður í nótt og morgunn. Mér skilst að það spái svo áframhaldandi snjókomu næstu daga. Þannig að veturinn er hvergi nærri búinn.
Í byrjun mars erum við hjónin að fara til Dóminíska lýðveldisins í tæpar tvær vikur. Tilefnið er fertugsafmæli húsbóndans. Það verður frábært að komast í sól og hita eftir ansi hreint leiðinlegt haust og vetur.
Seinnipartinn í apríl kemur ný finnsk stúlka til okkar, Helena. Hún ætlar að vera hjá okkur í sumar. Reyndar þarf hún að skreppa í nokkra daga til Finnlands í lok maí þar sem hún er að útskrifast úr menntaskóla. Við hlökkum til að hitta hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2008 | 20:12
Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó
Þá er stund milli stríða og smá tími fyrir bloggfærslu. Um helgina vorum við á Stokkseyri, buðum Andreu frænku með og gistum eina nótt. Gísli var reyndar að vinna. Við komumst ekki á Stk. um jólin sökum veðurs. Í gær fórum við svo í þriggja ára afmæli hjá Snæfríði Evu frænku okkar. Það var mjög gaman enda mjög, mjög langt síðan við höfðum séð frænkurnar. Mætti halda að maður byggi á Norðurpólnum.
Í morgun þegar ég fór í vinnunna var snjókoma og hafði greinilega snjóað heilmikið í nótt. Þegar ég kom heim úr vinnunni var ennþá snjókoma og enn snjóar. Í veðurfréttunum áðan var útlit fyrir enn meiri snjókomu næstu daga. Það er alveg spurning hvort ég verði að fara á traktornum mínum í vinnuna. Ég yrði nú vígaleg á traktornum með ámoksturstækin. Hef góðan spotta með mér ef ég þarf að kippa einhverjum upp:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2007 | 14:44
Annáll ársins 2007
Nú er árið 2007 senn á enda runnið. Það hefur verið nokkuð viðburðaríkt í mínu lífi líkt og undanfarin 9 ár. Við fluttum í nýja húsið okkar í lok janúar. það er búið að vera ósköp notalegt að búa í svo glæsilegu húsi að ég held að það teljist til forréttinda.
Búskapurinn hefur gengið ágætlega og sauðburðurinn gekk með besta móti. Heimtur í haust voru með ágætum og var kindunum fjölgað um 100. Það varð að taka hluta af hlöðunni og breyta henni í fjárhús svo hægt væri að koma öllum kindunum fyrir.
Við fengum meri á árinu í skiptum fyrir fjórhjól. Hún hefur reynst okkur vel og er alveg dásamleg. Verst hvað maður hefur lítinn tíma til að sinna henni. Ég fékk líka 9 hænu unga sem reyndust vera 5 hanar og 4 hænur. Hönunum var slátrað öllum nema einum. Hænurnar eru byrjaðar að verpa en það er ansi erfitt að finna eggin því þær verpa bara þar sem þeim sýnist þrátt fyrir fínan heimasmíðaðan varpkassa. Það var svo hann Lubbi, lítill sætur hvolpur sem flutti í sveitina á árinu. Hann braggast vel og fer á hverjum morgni með húsbónda sínum í fjárhúsin.
Í haust kom til okkar yndisleg finnsk stúlka sem var hjá okkur fram að jólum. Það var mjög gott að hafa hana hjá okkur og söknum við hennar mjög. Það er aldrei að vita nema það komi önnur finnsk í vor áður en sauðburðurinn hefst.
Alexander byrjaði í grunnskóla nú í haust og Guðjón fór í annan bekk og Pétur í níunda. Bjarki Blær er bara orðinn einn eftir á leikskóla.
Við Pétur skelltum okkur í helgarferð til Manchester á árinu. Það gekk mjög vel og áttum við góðan tíma saman.
Ég flutti í nýja leikskólann í ágúst sem var þvílíkur munur frá fyrra húsnæði. Starfsemin hefur gengið með ágætum og hefur börnum og starfsmönnum fjölgað nokkuð.
Í september byrjaði ég aftur í pólitíkinni eftir nokkurra mánaða hlé. Það er mjög gaman að vera kominn af stað aftur. Fullt af spennandi og skemmtilegum verkefnum framundan.
Árið 2008 sem senn gengur í garð leggst vel í mig. Það eru mörg spennandi verkefni hjá mér á næsta ári. Það er alveg orðið spurning um að láta stóru draumana rætast. Meira um það síðar.
Guð gefi ykkur öllum gleði og gæfu á nýju ári.
Gleðilegt ár!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2007 | 09:11
Gleðileg jól
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Njótið nú jólahátíðarinnar í friði og ró með þeim sem ykkur eru kærastir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2007 | 13:57
Annar í aðventu
Undanfarnir dagar hafa verið nokkuð þéttir og því lítill tími til að blogga. Á föstudag fór ég á sameiginlegan sveitarstjórnarfund Akraneskaupsstaðar, Borgarbyggðar, Skorradalshrepps og Hvalfjarðarsveitar. Eftir fundinn fórum við í heimsókn í Menntaskóla Borgarfjarðar. Ég er algjörlega frá mér numin af því starfi sem þar er unnið. Við enduðum svo á jólamáltíð á Landnámssetrinu sem var æðislegt.
Í gær fór ég í verslunar og menningarferð til Reykjavíkur með þrjá yngstu synina. Við keyptum nokkrar jólagjafir og skelltum okkur svo í bíó. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer með synina í bíó. Allt er jú einhvern tímann fyrst...
Á eftir erum við að fara yfir til tengdó að mála piparkökur. Annars er ég bara að reyna njóta aðventunnar og vera ekki í einhverju jólastressi. Það gengur ágætlega með dyggum stuðningi eiginmannsins. Ég er farin að hlakka óskaplega mikið til að komast í jólafrí en ég verð í nokkuð góðu jólafríi. Reyndar var ég kosinn í að sjá um jólaballið í Lyngbrekku ásamt öðrum góðum konum. Þannig að ég verð eitthvað að baka á milli jóla og nýárs, það verður nú bara gaman. Annars ætla ég að reyna gera sem allra minnst um jólin og reyndar fyrir jól einnig.
Ég er enn í sjúkraþjálfun og ekkert útlit fyrir að því fari að ljúka. Ég er ýmist ágæt eða mjög slæm þannig að sjúkraþjálfarinn er orðinn alveg ruglaður. Ég fór svo til læknis á föstudaginn til að fá álit hans. Málið er að það er útbungan í liðþófa í hálsi sem er líklega að valda mér þjáningum mínum. Ef ekkert er að gert breytist það í brjósklos. Næstu vikurnar hjá mér verða því stífar í sjúkraþjálfun og vottorð um að gera sem allra allra minnst. Það er það erfiðasta í þessu öllu. Ég vil helst gera allt sjálf en nú gengur það ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2007 | 08:31
Á lífi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2007 | 08:10
Menningarheimur bænda
Það var fróðlegt á föstudagskvöldið að skyggnast inn í menningarheim bænda. Maturinn og skemmtiatriðin voru alveg ágæt en frekar langdreginn. Ég var við það að sofna þegar Grundartangakórinn var að syngja. Áður en ég lognaðist alveg útaf dengdi ég í mig einum kaffibolla. Eftir að formlegri dagskrá var lokið hóf hljómsveitin Stuðbandalagið að spila undir dansi. Þá fyrst hélt ég nú að dæi úr leiðindum. Þvílíkt og annað eins, það var ekki hægt að tala saman við borðið okkar þar sem hávaðinn var svo gríðarlegur. Þar sem ég var bílstjóri vissi ég að það þýddi ekkert að fara tala um að fara koma heim. Ég labbaði fram og til baka, heilsaði nokkrum, og reyndi að halda andlitinu. Það bjargaði kvöldinu að ég settist við hliðina á Svanhildi í Álftártungu og gat spjallað við hana.
Á heimleiðinni hófst mikill söngur í aftursætinu og í kjölfarið spunnust rökræður um lagleysi annars söngvarans. Ég ætlaði ekki að geta keyrt ég hló svo mikið. Þakka fyrir að hafa komið þeim heilu og höldnu heim. Það er eiginlega bara miklu skemmtilegra að vera ófullur og hafa gaman af vitleysunni í fulla fólkinu. Hún getur verið alveg ótrúleg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 17:48
Í hnotskurn
Loksins gef ég mér tíma til að setjast fyrir framan tölvuna og skrifa inn á bloggsíðuna. Eins og oft áður er mikill erill í kringum mig og mína. Um síðustu helgi voru 6 Finnar hjá okkur. Við héldum einnig upp á afmælið hans Alexanders á laugardaginn og á föstudaginn fengum við frekar sjaldgæfa gesti en Olga, Villi og Karen Sif komu í heimsókn. Það var alveg ofboðslega gaman að fá þau enda eru þau alltaf jafn yndisleg. Það var reyndar frekar fátt úr minni famílíu í afmælinu á laugardaginn. Systur mínar voru uppteknar við háskólanámið og bræður mínir fjarri góðu gamni. Mamma og pabbi létu þó sjá þannig að þetta var hin fínasta veisla. Ég held að ég hafi aldrei verið jafnslök fyrir neina veislu áður. Ég byrjaði að undirbúa veisluna á laugardagsmorgninum með því að fara yfir til tengdó á náttfötunum til að fá lánað eitt og annað sem mig vantaði. Svo komu óvæntir gestir rétt eftir hádegi og ég enn á náttfötunum en þeir virtust ekkert láta það á sig fá. Ég rétt náði svo að skipta um föt áður en veislugestirnir komu.
Í gær kom nýjasti fjölskyldumeðlimurinn til okkar. Hann heitir Lubbi og er 2 mánaða 3/4 bordes collie og 1/4 íslenskur hundur. Hann er búinn að fá mikla athygli fjölskyldumeðlima og virðist vera hinn ánægðasti með nýja heimilið.
Í kvöld erum við að fara með gömlu á sveitateiti á Hótel Borgarnesi. Það er nokkurskonar árshátíð bænda á Vesturlandi. Það verður spennandi að sjá hvernig slíkar samkomur fara fram. Vonandi fer þó enginn að tala um ljósastaura við mig. Ég nenni ekki í þá umræðu. Góða helgi:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2007 | 22:37
Fyrsti vetrardagur
Það sem af er helgi er búið að vera frekar rólegt. Í kvöld eldaði ég ungverska gúllassúpu og bakaði brauð með. Tengdó og Mæja og Nökkvi komu í mat til okkar ásamt Pálma. Tengdamamma hafði verið fyrr í dag í frænkuboði og kom með hálfan pott af íslenskri kjötsúpu. Þannig að það var til nóg af súpu. Anni og Elisa komu svo ásamt tveimur finnskum stelpum og dreif ég súpu í þær. Þær höfðu verið á ferðalagi í dag á Snæfellsnesi og ætla svo að gista á Brúarlandi í nótt. Gísli er svo að fara í enn eina leitina í fyrramálið. Mér finnst endalaust verið að leita af kindum. Mér skilst að skýringin sé að hluta til sú að menn eru ekki samtaka í smalamennsku og girðingar á milli afrétta í misjöfnu ásigkomulagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 00:40
Leyndarmálið
Síðustu dagar hjá mér hafa verið nokkuð erfiðir þar sem ég er að glíma við erfið og leiðinleg mál í vinnunni. Mér finnst ég alltaf vera að slökkva elda. Ég er þó að reyna nýta mér boðskapinn úr Leyndarmálinu eða The secret eftir Rhonda Byrne. Ég mæli eindregið með að allir lesi þessa frábæru bók. Í raun og veru er ekkert nýtt undir sólinni því að bókin byggir að miklu leyti á ævafornri speki. Aftan á bókarkápu stendur: "Kjarni Leyndarmálsins felst í lögmáli aðdráttaraflsins sem er óbreytanlegt líkt og önnur náttúrulögmál. Allt sem gerist í lífinu löðum við að okkur. Ef við náum að stilla tilveruna og það sem við viljum öðlast á sömu tíðni, getum við kallað til okkar betra líf, andlegt og veraldlegt. Þetta er sjálft Leyndarmálið-það er falið innra með hverjum og einum og möguleikarnir eru endalausir".
Nú ætla ég að fara gera tilraun á sjálfri mér og tileinka mér boðskap Leyndarmálsins og sjá hvort að líf mitt tekur ekki breytingum til batnaðar. Læt ykkur vita hvernig gengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)