24.11.2007 | 08:31
Á lífi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2007 | 08:10
Menningarheimur bænda
Það var fróðlegt á föstudagskvöldið að skyggnast inn í menningarheim bænda. Maturinn og skemmtiatriðin voru alveg ágæt en frekar langdreginn. Ég var við það að sofna þegar Grundartangakórinn var að syngja. Áður en ég lognaðist alveg útaf dengdi ég í mig einum kaffibolla. Eftir að formlegri dagskrá var lokið hóf hljómsveitin Stuðbandalagið að spila undir dansi. Þá fyrst hélt ég nú að dæi úr leiðindum. Þvílíkt og annað eins, það var ekki hægt að tala saman við borðið okkar þar sem hávaðinn var svo gríðarlegur. Þar sem ég var bílstjóri vissi ég að það þýddi ekkert að fara tala um að fara koma heim. Ég labbaði fram og til baka, heilsaði nokkrum, og reyndi að halda andlitinu. Það bjargaði kvöldinu að ég settist við hliðina á Svanhildi í Álftártungu og gat spjallað við hana.
Á heimleiðinni hófst mikill söngur í aftursætinu og í kjölfarið spunnust rökræður um lagleysi annars söngvarans. Ég ætlaði ekki að geta keyrt ég hló svo mikið. Þakka fyrir að hafa komið þeim heilu og höldnu heim. Það er eiginlega bara miklu skemmtilegra að vera ófullur og hafa gaman af vitleysunni í fulla fólkinu. Hún getur verið alveg ótrúleg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 17:48
Í hnotskurn
Loksins gef ég mér tíma til að setjast fyrir framan tölvuna og skrifa inn á bloggsíðuna. Eins og oft áður er mikill erill í kringum mig og mína. Um síðustu helgi voru 6 Finnar hjá okkur. Við héldum einnig upp á afmælið hans Alexanders á laugardaginn og á föstudaginn fengum við frekar sjaldgæfa gesti en Olga, Villi og Karen Sif komu í heimsókn. Það var alveg ofboðslega gaman að fá þau enda eru þau alltaf jafn yndisleg. Það var reyndar frekar fátt úr minni famílíu í afmælinu á laugardaginn. Systur mínar voru uppteknar við háskólanámið og bræður mínir fjarri góðu gamni. Mamma og pabbi létu þó sjá þannig að þetta var hin fínasta veisla. Ég held að ég hafi aldrei verið jafnslök fyrir neina veislu áður. Ég byrjaði að undirbúa veisluna á laugardagsmorgninum með því að fara yfir til tengdó á náttfötunum til að fá lánað eitt og annað sem mig vantaði. Svo komu óvæntir gestir rétt eftir hádegi og ég enn á náttfötunum en þeir virtust ekkert láta það á sig fá. Ég rétt náði svo að skipta um föt áður en veislugestirnir komu.
Í gær kom nýjasti fjölskyldumeðlimurinn til okkar. Hann heitir Lubbi og er 2 mánaða 3/4 bordes collie og 1/4 íslenskur hundur. Hann er búinn að fá mikla athygli fjölskyldumeðlima og virðist vera hinn ánægðasti með nýja heimilið.
Í kvöld erum við að fara með gömlu á sveitateiti á Hótel Borgarnesi. Það er nokkurskonar árshátíð bænda á Vesturlandi. Það verður spennandi að sjá hvernig slíkar samkomur fara fram. Vonandi fer þó enginn að tala um ljósastaura við mig. Ég nenni ekki í þá umræðu. Góða helgi:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2007 | 22:37
Fyrsti vetrardagur
Það sem af er helgi er búið að vera frekar rólegt. Í kvöld eldaði ég ungverska gúllassúpu og bakaði brauð með. Tengdó og Mæja og Nökkvi komu í mat til okkar ásamt Pálma. Tengdamamma hafði verið fyrr í dag í frænkuboði og kom með hálfan pott af íslenskri kjötsúpu. Þannig að það var til nóg af súpu. Anni og Elisa komu svo ásamt tveimur finnskum stelpum og dreif ég súpu í þær. Þær höfðu verið á ferðalagi í dag á Snæfellsnesi og ætla svo að gista á Brúarlandi í nótt. Gísli er svo að fara í enn eina leitina í fyrramálið. Mér finnst endalaust verið að leita af kindum. Mér skilst að skýringin sé að hluta til sú að menn eru ekki samtaka í smalamennsku og girðingar á milli afrétta í misjöfnu ásigkomulagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 00:40
Leyndarmálið
Síðustu dagar hjá mér hafa verið nokkuð erfiðir þar sem ég er að glíma við erfið og leiðinleg mál í vinnunni. Mér finnst ég alltaf vera að slökkva elda. Ég er þó að reyna nýta mér boðskapinn úr Leyndarmálinu eða The secret eftir Rhonda Byrne. Ég mæli eindregið með að allir lesi þessa frábæru bók. Í raun og veru er ekkert nýtt undir sólinni því að bókin byggir að miklu leyti á ævafornri speki. Aftan á bókarkápu stendur: "Kjarni Leyndarmálsins felst í lögmáli aðdráttaraflsins sem er óbreytanlegt líkt og önnur náttúrulögmál. Allt sem gerist í lífinu löðum við að okkur. Ef við náum að stilla tilveruna og það sem við viljum öðlast á sömu tíðni, getum við kallað til okkar betra líf, andlegt og veraldlegt. Þetta er sjálft Leyndarmálið-það er falið innra með hverjum og einum og möguleikarnir eru endalausir".
Nú ætla ég að fara gera tilraun á sjálfri mér og tileinka mér boðskap Leyndarmálsins og sjá hvort að líf mitt tekur ekki breytingum til batnaðar. Læt ykkur vita hvernig gengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)