Vígsla

Í morgun var leikskólinn Ugluklettur formlega vígður að viðstöddum fjölda gesta. Athöfnin var hin glæsilegasta og allt fór vel fram. Þar sem mér finnst einstaklega gaman að tala þá stýrði ég athöfninni og hélt ræðu. Séra Flóki Kristinsson kom og blessaði húsnæðið og starfsemina og Finnbogi Rögnvaldsson, formaður byggðaráðs, hélt ræðu fyrir hönd sveitarfélagsins. Börnin sungu svo nokkur lög við undirleik Hörpu Einarsdóttur, deildarstjóra. Að lokum klipptu börnin á borða sem var í raun táknrænt fyrir að leikskólinn er formlega tekinn í notkun. Boðið var uppá léttar veitingar og svo gafst almenningi kostur á að koma skoða leikskólann. Mér fannst almenn ánægja með leikskólann enda get ég alveg tekið undir það þar sem hann er glæsilegur.

Í kvöld eru svo starfsmenn Uglukletts ásamt fræðslustjóra að fara út að borða á veitingahúsinu í Hraunsnefi í Norðurárdal í boði sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Þar sem óvenju margir starfsmenn ásamt fræðslustjóra eru búsettir á Mýrunum er ég búin að fá tengdapabba til að vera með sætaferðir í Borgarnes og svo heim aftur. Við ætlum að hittast heima hjá Kristínu Gísla áður en við förum að borða. Það er nú alveg nauðsynlegt að hita aðeins upp og fá sér eins og eitt kampavínsglas fyrir matinn. Hvað gerist eftir matinn er ekki gott að segja en við fáum stundum ansi hreint sniðugar hugmyndir. Ekki meira að sinni. Góða helgi:)

 


Femina eða Felis silvestris catus

Nú velti ég því alvarlega fyrir mér hvort ég er femina eða felis silvestris catus. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum eru þær að fyrir nokkrum dögum fór ég til kvensjúkdómalæknis vegna endometriosis.

Læknirinn sem var hinn almennilegasti benti mér á að það væri hægt að meðhöndla þetta vandamál með lyfjameðferð. Ég jánkaði því þar sem ég var að leita bót meina minna hjá honum. Hann skrifaði lyfseðil og kvaddi mig svo.

Nokkru síðar dreif ég mig í apótekið með lyfseðilinn þar sem ég ætlaði nú að fara hefja lyfjameðferðina. Það var eitthvað voðalegt vesen á konunni í apótekinu sem var að afgreiða mig. Hún sagði að skammtastærðin væri ekki rétt og að læknirinn sem hefði skrifað uppá seðilinn var farinn úr landi. Og hvað sagði ég? Ég verð að fá þessar töflur. Lyfjafræðingurinn kom svo og ræddi við mig og féllst á að láta mig fá lyfið þó ekki í þeirri skammtastærð sem upp var gefinn.

Þegar ég var svo komin heim reif ég upp pakkann og dengdi einni pillu í mig. Svo fór ég að lesa utan á pakkann: Perlatex, takist samkvæmt umtali. Eitthvað var þetta kunnuglegt. Hvar hafði ég rekist á þetta lyf. Jú, hjá tengdamömmu. Einmitt, hún gefur læðunum sínum þetta lyf einu sinni í viku, svo þær verði ekki kettlingafullar. Nei þetta er eitthvað rugl í mér. Ég verð að fara til hennar og fá þetta staðfest.

"Getur verið að þú gefir kisunum þínum svona töflur sagði ég við hana og sýndi henni pakkann." Jú það passar sagði hún og náði í pakkann uppí skáp. Já en ég er ekki köttur. Ég fékk þetta hjá kvensjúkdómalækni vegna endometriosis. Það getur alveg passað sagði hún. Dýralæknirinn var búinn að segja mér að konur fengju stundum þetta lyf. Oh my god...

Næst fer ég bara til dýralæknis. Það er líka miklu ódýrara. Gísli getur líka fengið virðisaukann endurgreiddan af lyfjum þar sem þetta er hluti af rekstrarkostnaði.


Fjölgun í fjölskyldunni

Í gær fór ég í fyrsta tímann hjá sjúkraþjálfaranum. Hann skoðaði mig í bak og fyrir og tók skýrslu af mér. Þarf að fá áverkavottorð þar sem meiðslin eru afleiðingar vinnuslyss sem ég varð fyrir um ári síðan. Vonandi tekst honum að lappa upp á mig. Ég er allavega alveg eins og gamalmenni eins og ég er núna.

Eftir vinnu í dag fórum við Bjarki og Alexander í heimsókn til Ásthildar og Ragnheiðar Guðrúnar á Ánabrekku. Ástæðan fyrir heimsókninni var mjög skemmtileg en við vorum að velja okkur hvolp. Það voru þrír hrikalega krúttlegir hvolpar sem við gátum valið um. Prófuðum að halda á þeim og knúsast aðeins í þeim. Erum búin að velja en við vitum ekki alveg hvenær við fáum hann afhentan. Á heimleiðinni ræddum við aðeins hvað hann ætti að heita. Bjarki stakk uppá að hann fengi nafnið Raggi en Alexander lagði til litli sæti Angi. Ansi hreint frumlegir þessir drengir mínir.


Get ekki setið á mér

Í gær var ég á ansi löngum fundi í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Þar voru málefni OR rædd og þær afleiðingar sem þetta mál hefur haft þá sérstaklega fyrir ímynd fyrirtækisins. Til að upplýsa ykkur sem ekki vitið þá á Borgarbyggð tæpt eitt prósent í OR þannig að við erum með áheyrnarfulltrúa í stjórninni. Sveitarstjórn Borgarbyggðar sendir frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem við lýsum áhyggjum okkar í þessu máli og þeim vinnubrögðum sem við voru höfð.

Mér finnst framganga framsóknarmannsins Björns Inga Hrafnssonar alveg með ólíkindum. Maður veltir fyrir sér hvort að Guðni Ágústsson formaður framsóknarmanna sé að ná fram hefndum gegn Sjálfstæðismönnum. Það sem gerðist í gær í borgarmálunum í Reykjavík sýnir okkur einfaldlega það hversu pólitíkin getur verið grimm og óvægin. Valdabaráttan er svo mikil að menn svífast einskis ef þeir fá einhver völd. Ég harma svona framgöngu og ég held að hún sé alls ekki til góða fyrir borgarbúa.

Ég og strákarnir ætlum að skreppa á Stokkseyri um helgina þar sem mér skilst að verði nokkuð fjölmennt. Bjarki er búinn að suða alla vikuna um að fara þangað þannig að ég ætla að láta undan. Gísli er líka að fara í leit á laugardaginn þannig að hann verður ekki heima. Að lokum þá vil ég  óska ykkur góðrar helgar.


Bóndi í útrás

Fyrr í kvöld fór Gísli á bæ einn hér í Hraunhreppnum ásamt móður sinni og vinnukonu að skoða fé til kaups. Mér skilst að til standi að kaupa um 100 fjár hvorki meira né minna. Ég skil reyndar ekki þennan gríðarlega áhuga eiginmannsins á sauðfé en það er bara svona. Maður skilur víst ekki allt í þessari veröld. Hann skilur heldur ekkert í mér hvernig í ósköpunum ég geti haft gaman af því að vasast í pólitík en svona erum við mannskepnurnar nú ólíkar. Wink

Í gærkvöldi missti Alexander eina tönn sem er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað að Guðjón var líka með eina lausa. Alexander hugsaði sér gott til glóðarinnar og setti tönnina undir koddann í þeirri von að tannálfurinn ætti einhvern aur. Guðjón gat ekki til þess hugsað að hann fengi engan aur og fór því inn á klósett og byrjaði að rugga tönninni fram og til baka uns hún lét undan. Það voru því þónokkur útgjöld hjá tannálfinum í nótt þar sem tvær tennur yfirgáfu litla munna.Grin

Í morgun fór ég til læknis þar sem ég þarf að láta fjarlægja góðkynja kalkkirtla í höfðinu á mér. Ég var nú svo bjartsýn að ég hélt að hann gæti gert þetta strax en það var nú ekki alveg svo. Ég á reyndar að koma á mánudaginn þar sem þeir verða fjarlægðir með smá aðgerð. Eftir hádegi fór ég svo aftur til læknis þar sem ég þjáist af miklum verkjum í hálsi og öxl. Læknirinn talaði um að ég væri með hnúða í hálsinum og þarf því að fara í leisermeðferð hjá sjúkraþjálfara eða að fá sprautur í hálsinn. Ég valdi frekar sjúkraþjálfarann þar sem mér er frekar illa við sprautur. Vonandi fer ég nú að hressast eftir allar þessar læknisheimsóknir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband