Rollu rag

Í gær var allsherjar smalamennska á okkar svæði. Nú er það orðið þannig að það eru svo fáir sem smala að við verðum að smala fleiri, fleiri hektara. Reyndar slapp ég nokkuð vel þar sem ekki er gerlegt að fara þetta svæði fótgangandi. Sem betur fer eru til fjórhjól sem hjálpa til við smalamennskur. Algjörlega nauðsynlegar græjur.

Við Anni fórum með strákana á fjórhjóli og smöluðum frá Brúarfossi og hingað heim. Veðrið var alveg yndislegt þannig að við lögðum fjórhjólinu og hóuðum kindunum heim. Ég er ekki frá því að ég hafi bara verið nokkuð hressari eftir smalamennskuna í gær. Á eftir erum við svo að fara reka inn og taka lömbin frá. Næsta slátrun verður í lok þessarar viku. Uppfrá því fer smalamennskum að ljúka í bili. Um næstu helgi er að vísu þriðja leit en ég geri ekki ráð fyrir að við fáum margar kindur úr þeirri leit.

 


Orð eru til alls fyrst

Síðustu dagar hjá mér eru búnir að vera frekar strembnir. Á mánudagsmorgun skömmu áður en ég ætlaði í vinnuna byrjaði ég að kasta upp með svo miklum látum að ég vissi hvernig þetta myndi enda. Það endaði nú reyndar þannig að ég hætti að kasta upp og svaf það sem eftir var dagsins. Í gærmorgun dreif ég mig svo í vinnuna þar sem mér fannst ég ekki geta legið svona eins og drusla. Til að byrja með var ég bara nokkuð hress en svo fór aðeins að svífa á mig. Þar sem ég þjáist af ansi mikilli þrjósku þá lét ég þetta ekki á mig fá heldur hélt út daginn. Þegar ég var svo komin heim seinnipartinn í gær var ég gjörsamlega búin á því. Í morgun ákvað ég svo að þetta gengi ekki og dengdi í mig heilum helling af vítamínum og hvað þetta nú allt heitir. Já og pantaði tíma hjá lækni svona bara til að róa Gísla. Reyndar veit ég svosem alveg hvað ég þarf að gera. Ég þarf að borða meira af hollri fæðu og hreyfa mig meira. Þetta hljómar svo hrikalega einfalt en er alveg hræðilega erfitt í framkvæmd. En orð eru jú til alls fyrst segir gamalt gott máltæki.

Sitt lítið af hverju

Þá er þessi vinnuvika að verða floginn á braut, nánast í orðsins fyllstu merkingu miðað við veðrið síðustu daga. Við Íslendingar verðum alltaf jafn hissa þegar það gerir almennilegt rok og rigningu. Alveg eins og við höfum aldrei upplifað annað eins, ótrúlegt alveg.

Í dag fór ég til Reykjavíkur á mjög stuttan en merkilegan fund. Við fórum fjórir fulltrúar Borgarbyggðar til fundar við fjárlaganefnd Alþingis. Merkilegt nokk. Mér var sagt slíkir fundir bæru jafnan lítinn árangur og áhugi fjárlaganefndar oft ansi lítill. En ég er á annarri skoðun. Í nýrri fjárlaganefnd situr nú þrautreynt sveitarstjórnarfólk sem sýndi málefnum okkar skilning og áhuga. Þannig að ég hef það á tilfinningunni að ferðin hafi verið hin gagnlegasta. Það er nú bara þannig að maður verður að koma óskum sínum á framfæri þegar tækifæri gefst til. Þannig var það einmitt í dag.

 Á eftir erum við hjónin að fara út að borða með stjórn DAB en þar sit ég sem ritari. Ástæðan fyrir kvöldverðinum er sú að Margrét Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri er að láta af störfum eftir 30 ára farsælt starf. Það verður því ánægjulegt að geta átt notalega stund með Margréti ásamt öðrum stjórnarmeðliðum.

Um helgina eru svo bara fleiri kindur og réttir. Andrea frænka okkar ætlar að koma um helgina og strákarnir orðnir svaka spenntir að fá hana í heimsókn. Annars ætla ég bara að hafa það huggulegt um helgina á meðan Gísli eltir kindur um öll fjöll.


Dagur í lífi mínu

 

Vakna fyrir allar aldir. Kem strákunum á fætur. Gengur misvel. Allt í stressi. Allir of seinir. Skólabíllinn kominn. Hvar er taskan mín? En nestið? Hvar er húfan mín? Þessi söngur glymur í eyrum mínum nánast alla virka morgna. Út í bíl með ykkur. Bless,bless. Gangi ykkur vel í dag. Ég keyri í vinnuna. Hlusta á morgunútvarpið á Rás 2. Það róar mig aðeins. Reyni að henda öllu stressi og pirringi frá svo ég taki það ekki með mér í vinnuna.

Þegar í vinnuna er komið byrjar stressið aftur. Endalaus áreiti allan daginn. Ertu búinn að hringja í smiðinn? En píaparann? Já og hvernig er eiginlega með A Karlsson? Ó nei ekki aftur. Alveg að verða of sein á fund. Ek  helst til of hratt svo ég mæti ekki alltof seint. Kem aftur í vinnuna. Ég sé ekki í borðið fyrir minnismiðum. Hringja í þennan og þennan. Nokkrir tölvupóstar, svara þeim. Reyni að komast í gegnum verkefnabunkann. Klukkan alveg að verða fjögur. Hendist út í bíl og sæki Bjarka. Já og hvar skyldi Pétur svo vera. Þá byrjar leitin að honum. Hann finnst fyrir rest. Líklega þarf ég að fara í búðina. Eitthvað þurfum við að borða. Æji svo er bíllinn alveg að verða bensínlaus. Þá er ég loksins á leiðinni heim. Reyni að slaka á. Spjalla við Bjarka og Pétur. Þegar heim er komið er smá hvíld en ekki lengi. Það þarf að elda kvöldmat. Hjálpa strákunum að læra ef þeir eru ekki búnir að því. Er orðin gjörsamlega úrvinda klukkan níu þrátt fyrir nokkurt magn af spírulínu. Sigli inn í draumalandið....og dvel þar um stund uns nýr dagur er kominn. Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu???


Gamlar myndir

 Guðjón Öfjörð                             Guðjón 2

Við fengum þessar  myndir af Guðjóni Öfjörð langafa hans Gísla senda í tölvupósti frá manni sem heitir Erlingur Kristensson. Hann var í sveit hjá Guðjóni gamla í Lækjarbug um miðja síðustu öld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband